Wednesday, August 22, 2012

Nýlegar fréttir af mér.

Af mér er það að frétta frá síðustu skrifum mínum, að ég hef fengið vinnu.
Það á að kallast bókhaldsvinna, en hún hefur farið nokkuð rólega af stað. En þetta kemur allt saman.
Ég var semsagt búinn að vera atvinnulaus síðan í október 2010 þar til 1. júlí 2012. Nokkuð langur tími að margra mati.
Margir spurðu mig að því hvort ég væri ekki að verða vitlaus, að hafa ekkert að gera. En mitt svar var alltaf það sama. "Það að gera ekki neitt hefur aldrei þvælst fyrir mér". Mér hefur ekki leiðst neitt. Það var alltaf tími til að fara í sundlaugarnar og synda þá 1600 metra sem ég hef komið mér í. Var einn daginn reyndar svo afslappaður í sundinu að ég synti 2 Km án þess að blása úr nös.
En ég hleyp ekki svona langt. Ég hef ekkert úthald í að hlaupa. Og svo vil ég ekki leggja það á hnjáliðina á mér. Þeir eru ekkert allt of góðir. Búinn að fara í speglunaraðgerð á báðum hnjám og finn að ég þarf að hlífa þeim. Svo að sundið varð fyrir valinu.
En aðalfréttin af mér er semsagt sú að ég er farinn að vinna.
Meira seinna fyrir ykkur sem sjáið þetta og nennið að lesa það.

Saturday, April 21, 2012

Erfiðir dagar liðnir.

Þá er maður búinn að vera að standa í garðvinnu í 2 daga.
Fórum tveir úr húsinu út í gærmorgun og byrjuðum að saga niður tré sem vor orðin of stór og skyggðu á húsið.
Þetta var heilmikil púlvinna. Þó vorum við með 2 keðjusagir.
Og mikið rosalega getur hæð trjáa platað mann. Greinar og stofnar voru miklu stærri en við gerðum okkur grein fyrir. En niður fór þetta allt saman og var sagað alveg niður við jörð.
Vorum að til um kl. 18:30 í gærkvöld. Einn íbúi hússins, sem kom ekki nálægt neinu og lét sig hverfa, fékk hálfgert áfall þegar hann kom svo heim undir kvöldið og sá hvað við höfðum afkastað. Vildi meina að við hefðum tekið meira en um hafði verið rætt, en það var nú ekki svo og honum gerð grein fyrir því.
Þá skrapp ég út í sundlaug og settist í nuddpottinn. Og það var sko þörf á því. Nýi nuddpotturinn er rosalega góður. Ég hélt að nuddbunan ætlaði í gegnum mig.
Svo héldum við áfram að saga niður í smærri hluta, í dag, það sem við söguðum niður í gær.
En það tók okkur ekki nema um 2 tíma.
Fór svo aftur í sund áðan og synti þá í 30 mínútur, 1700 metra. Svo í nuddpottinn á eftir og nú líður mér alveg stórvel.
Ætla svo að slaka á í kvöld og glápa á imbann, þó engin sérstök dagskrá verði þar.

Monday, April 16, 2012

Er vorið á næstu grösum?

Það eru margir sem velta því fyrir sér hvort vorið sé komið. Ég er nú eiginlega kominn á þá skoðun.
Alla vega eru trén í garðinum farin að springa út. Meira að segja birkið er farið að opna brumin. Og lætur það nú ekki plata sig neitt.
Mispillinn er orðinn vel grænn og reynirinn er líka byrjaður að opna sig. Þannig að vorið er komið og grundirnar gróa.
En svo hugsar maður til þess að sumardagurinn fyrsti er í vikunni. Ég er nú á því að gömlu karlarnir sem settu hann á í apríl hafi bara kunnað á tvær árstíðir, sumar og vetur. Þeir hafa semsagt alveg gleymt því að það eru líka til vor og haust, sem koma inn á milli.
Maður man nú svosem eftri því að hafa látið plata sig til að ganga í einhverri skátaskrúðgöngu á sumardaginn fyrsta, í frosti og þar af leiðandi í skítakulda og roki. Og ekki mátti maður vera í neinu utanyfir fína búninginn. Svo maður reyndi að troða sér í eitthvað innanundir, en það dugði ekki til. Maður varð kaldur frá toppi til táa.
En sem betur fer er ég ekki starfandi í skátahreyfingunni lengur og þarf því ekki að ganga í einhverri múnderingu fyrir þá. Í staðinn hef ég hugsað mér að fara í bænagöngu og biðja fyrir landi og þjóð. Ekki veiti af.
Og svo ætla ég að kíkja í kaffisölu Skógarmanna eftir hádegið á sumardaginn fyrsta. Þar er alltaf eitthvað gott til að láta í gogginn.
Vonandi sé ég marga þar sem ég þekki.
Kveðjur að sinni.
Marinó

Friday, March 9, 2012

Skrapp í dag á bókamarkaðinn í Perlunni. Þar var bara ágætis úrval af kristilegum bókum á til þess að gera lágu verði. Þannig að konan keypti nokkrar.
Svo var þarna alveg hellingur af öðrum bókum sem mig hefði langað til að kaupa, en sumar voru helst til of hátt verðlagðar, fyrir mig.
Sonur minn fann reyndar ekki þær bækur sem hann var að sverma fyrir. Hann vantar einhverjar af fyrstu bókunum um Íslenska knattspyrnu. Flestar þeirra hefur hann einmitt fundið þarna á markaðnum.
En ég mæli eindregið með að fólk kíki á markaðinn. Hann hættir reyndar þetta árið á sunnudaginn 11. mars kl. 18.

Thursday, March 8, 2012

Kemur ekkert á óvart.

Það fór alveg eins og ég átti von á.
Það les enginn nema ég það sem ég skrifa hér á þessu bloggi.
Þannig að það er alltaf spurning hvort maður eigi að vera að eyða tíma í að skrifa fyrir sjálfan sig.

Ef tengja á saman tvö rör þarf maður oft að nota múffu.
En þegar maður tengir saman tvö orð eða fleiri lenda þau oft ofan í skúffu.

Tuesday, March 6, 2012

Um daginn var alveg einstaklega fallegur dagur.
Ég fór í sund, að vanda, og synti mína 1600 metra. Fór svo í pottinn og átti gott spjall við pottfélagana.
Oft á tíðum er ég yngstur í pottinum, þótt undarlegt sé.
Ég gekk svo heim og gat ekki stillt mig um að taka myndir á leiðinni. Umhverfið var svo fallegt.
Snjór yfir öllu og algert logn og heiður himinn að mestu.
Þá getur maður bara hugsað um að þetta sé dagur sem Drottinn hefur gert.