Monday, April 16, 2012

Er vorið á næstu grösum?

Það eru margir sem velta því fyrir sér hvort vorið sé komið. Ég er nú eiginlega kominn á þá skoðun.
Alla vega eru trén í garðinum farin að springa út. Meira að segja birkið er farið að opna brumin. Og lætur það nú ekki plata sig neitt.
Mispillinn er orðinn vel grænn og reynirinn er líka byrjaður að opna sig. Þannig að vorið er komið og grundirnar gróa.
En svo hugsar maður til þess að sumardagurinn fyrsti er í vikunni. Ég er nú á því að gömlu karlarnir sem settu hann á í apríl hafi bara kunnað á tvær árstíðir, sumar og vetur. Þeir hafa semsagt alveg gleymt því að það eru líka til vor og haust, sem koma inn á milli.
Maður man nú svosem eftri því að hafa látið plata sig til að ganga í einhverri skátaskrúðgöngu á sumardaginn fyrsta, í frosti og þar af leiðandi í skítakulda og roki. Og ekki mátti maður vera í neinu utanyfir fína búninginn. Svo maður reyndi að troða sér í eitthvað innanundir, en það dugði ekki til. Maður varð kaldur frá toppi til táa.
En sem betur fer er ég ekki starfandi í skátahreyfingunni lengur og þarf því ekki að ganga í einhverri múnderingu fyrir þá. Í staðinn hef ég hugsað mér að fara í bænagöngu og biðja fyrir landi og þjóð. Ekki veiti af.
Og svo ætla ég að kíkja í kaffisölu Skógarmanna eftir hádegið á sumardaginn fyrsta. Þar er alltaf eitthvað gott til að láta í gogginn.
Vonandi sé ég marga þar sem ég þekki.
Kveðjur að sinni.
Marinó

No comments:

Post a Comment